Sigtryggur Arnar Björnsson var sá leikmaður Skallagríms sem náði sér hvað best á strik. Ljósm. Skallagrímur.

Bitlausir Borgnesingar

Skallagrímur mætti Keflavík í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Keflavík. Skallagrímsmenn náðu sér aldrei nægilega vel á strik í leiknum og voru hálf bitlausir á löngum köflum. Eftir að heimamenn tóku forystuna náðu Borgnesingar aldrei að gera neina alvöru atlögu að forskotinu. Fór að lokum svo að Keflavík sigraði með 93 stigum gegn 80.

Leikurinn fór rólega af stað en var mjög jafn framan af fyrsta leikhluta. Það var ekki fyrr en á lokamínútum hans að heimamenn náðu góðum spretti og góðu tíu stiga forskoti, 20-30 fyrir annan fjórðunginn. Framan af honum héldu Keflvíkingar því forskoti að kalla óbreyttu. Skallagrímsmenn gerðu sig líklega um miðjan annan fjórðung og minnkuðu muninn í fimm stig en þá svöruðu Keflvíkingar og komu forskoti sínu aftur í tíu stig. Staðan í hálfleik var 45-35 fyrir Keflavík.

Heimamenn voru áfram sterkari eftir hléið og leiddu nokkuð þægilega fyrstu mínútur síðari hálfleiks. Seint í þriðja leikhluta gerðu Skallagrímsmenn sig aftur líklega og tóku að saxa á forskotið. Aftur urðu þeir hins vegar að láta staðar numið þegar fimm stig skildu liðin að. Keflvíkingar svöruðu fyrir sig og eins og hendi væri veifað voru þeir komnir 15 stigum yfir fyrir lokafjórðunginn og róðurinn orðinn þungur fyrir Skallagrím. Í lokaleikhlutanum voru heimamenn einfaldlega sterkari, komust tvisvar sinnum 20 stigum yfir en Borgnesingar náðu aðeins að klóra í bakkann í blálokin en það dugði skammt. Lokatölur í Keflavík voru 93-80, heimamönnum í vil.

Sigtryggur Arnar Björnsson var sá leikmaður Skallagríms sem náði sér hvað best á strik í leiknum. Hann skoraði 23 stig með prýðilega skotnýtingu og tók sjö fráköst. Flenard Whitfield var einnig með 23 stig, en honum voru oft mislagðar hendur í sókninni. Hann hitti aðeins úr þriðjungi skota sinna og tapaði boltanum sex sinnum. Honum gekk hins vegar betur í fráköstunum og tók 17 slík.

Í liði Keflvíkinga átti Amin Stevens stórleik, skoraði 31 stig og reif niður 20 fráköst.

Skallagrímur háir harða baráttu við botn deildarinnar. Liðið situr í fallsæti, 11. sæti, með tólf stig eftir 17 leiki, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir ofan en fjórum stigum á eftir liðunum í 6.-9. sæti.

Næsti leikur Skallagríms er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli í Borgarnesi sunnudaginn 19. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir