Skiptir miklu máli að hafa með sér gott fólk

– segir Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir nýskipaður forstjóri HVE

 

Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur var sett í starf forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands 1. febrúar síðastliðinn. Jóhanna er fædd og uppalin á Akranesi og hefur starfað við stofnunina frá árinu 1981. Lengst af var hún deildarstjóri á lyflækningardeild en hefur auk þess verið verkefnastjóri þróunar- og gæðamála, hjúkrunarforstjóri, verkefnastjóri hjúkrunar og frá árinu 2012 hefur hún verið framkvæmdastjóri hjúkrunar og rekstrar við stofnunina. „Ég ætlaði upphaflega ekki að vera hér lengi,“ segir Jóhanna í samtali við Skessuhorn. „Ég ætlaði í ævintýraleit en svo bara þróaðist það þannig að ég hef verið hér allan þennan tíma. Það sem festi mig hér er sérlega góður starfsandi og skemmtilegur hópur. Hér hefur mér alltaf liðið vel og verið í skemmtilegum verkefnum. Ég hef því ekki séð neina ástæðu til að skipta um vinnustað,“ heldur hún áfram. Jóhanna segist þó geta sagt að hún hafi unnið á þremur stofnunum á þessum tíma. „Ég byrjaði hér á Sjúkrahúsi Akraness, svo hét þetta Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi og frá 2010 hefur þetta verið Heilbrigðisstofnun Vesturlands og þá breyttist stofnunin mikið.“

 

Öflug starfsemi

Jóhanna er sett til eins árs á meðan Guðjón Brjánsson er í formlegu leyfi. Henni líst vel á starfið og er spennt að takast á við komandi verkefni. Hún segir þau þó vissulega krefjandi. „Mér hefur alltaf fundist gaman að breyta um vinkla. Þetta er spennandi, það er öflug starfsemi í allri stofnuninni og hér er stór hópur frábærra og traustra starfsmanna og stjórnenda. Ég kvíði þessu því ekkert, enda skiptir miklu máli að hafa með sér gott fólk. En verkefnin eru krefjandi og þau koma strax.“ Rósa Marinósdóttir hjúkrunarfræðingur og sviðsstjóri hjúkrunar í heilsugæslu mun leysa Jóhönnu af sem framkvæmdastjóri hjúkrunar og rekstrar næsta árið. „Það var tekin ákvörðun um að fá aðila úr okkar hópi í það. Hún hefur frá upphafi verið aðili í framkvæmdastjórn stofnunarinnar, sem fulltrúi heilsugæslunnar,“ segir Jóhanna.

 

Nánar er rætt við Jóhönnu Fjólu um komandi verkefni og helstu áskoranir í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir