Naglaframleiðslan heyrir brátt sögunni til í Borgarnesi

Í Límtré Vírneti í Borgarnesi er hin fræga naglaframleiðsla til húsa. Framleiðsla á nöglum var einmitt upphafið að rekstri Vírnets árið 1956 og fagnaði þessi hluti starfseminnar því 60 ára afmæli á síðasta ári. Stefán Logi Haraldsson framkvæmdastjóri segir að senn verði þessi framleiðsla nagla aflögð og marki það vissulega tímamót í sögu fyrirtækisins. „Það liggur fyrir að naglaframleiðslu í Borgarnesi verði hætt á þessu ári. Það er fullreynt að okkar áliti og framleiðsla á þessari vöru er engan veginn arðbær,“ segir hann. Frumástæður segir hann vera þær að notkun nagla hafi dregist verulega saman undanfarin ár. „Það hefur orðið breyting í notkun á festingum. Í dag nota menn fyrst og fremst skrúfur og aðrar viðlíka festingar. Síðan koma naglarnir. Þegar ég byrjaði hér árið 1999 var heildarframleiðsla á nöglum 500-600 tonn á ári en á síðasta ári var hún komin niður í um 160 tonn. Auðvitað hjálpar okkur ekki heldur í þessu samhengi að sterk króna hefur gert okkur mjög erfitt að keppa við innflutta nagla og festingar, því þetta er vara sem er ekki hægt að verðleggja nema út frá samkeppninni. Reiknisdæmið lá því ljóst fyrir, það er ekki hagkvæmt að framleiða nagla á Íslandi miðað við íslenskar markaðsaðstæður. Sömuleiðis er útilokað að framleiða nagla til útflutnings. Naglaframleiðsla og -notkun í Evrópu hefur dregist saman í nákvæmlega sama hlutfalli og hér,“ útskýrir Stefán.

En þrátt fyrir að hætta að framleiða nagla er prýðilegur vöxtur á öðrum sviðum starfseminnar hjá Límtré Vírneti. Í ítarlegu viðtali sem birtist í Skessuhorni í dag segir Stefán Logi lesendum frá því helsta sem í gangi er á ýmsum vígstöðvum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir