Stuðningsmenn Skallagríms ætla að fjölmenna á bikarúrslitaleikinn á morgun.

„Ekki talað um annað í Borgarnesi“

Skallagrímur mætir Keflavík í úrslitum Maltbikars kvenna í körfuknattleik á morgun, laugardaginn 11. febrúar. Liðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum eftir hádramatískan sigur á Snæfelli í mögnuðum undanúrslitaleik síðasta miðvikudag.

Borgnesingar fjölmenntu í Laugardalshöllina í undanúrslitum gegn Snæfelli og að sjálfsögðu ætla þeir að endurtaka leikinn í bikarúrslitaleiknum á morgun. Mikil stemning er í bænum og Borgnesingar bíða leiksins með mikilli eftirvæntingu. „Þetta lítur rosalega vel út, mikil stemning í liðinu og Borgnesingum öllum,“ segir Sigrún Reynisdóttir stuðningsmaður Skallagríms. Hún er afar dyggur stuðningsmaður, á sæti í kvennaráði körfuknattleiksdeildar og ætlar ekki að láta sig vanta á bikarúrslitaleikinn frekar en aðra leiki Skallagríms. Hún segir að það sama gildi um flesta ef ekki alla Borgnesinga. „Maður heyrir ekki talað um annað í Borgarnesi núna en bikarúrslitaleikinn og að allir ætli að mæta á morgun. Þannig að ég von á rosalegri stemningu í höllinni,“ segir Sigrún og sér fram á ánægjulegan laugardag. „Þetta verður rosalega gaman og síðan fara Borgnesingar beint á þorrablót í framhaldinu. Það er langur en skemmtilegur dagur framundan sem ég er viss um að fær góðan endi,“ segir hún.

 

„Skallagrímur verður bikarmeistari“

Úrslitaleikurinn hefst kl. 13:30 á morgun, laugardaginn 11. febrúar. og er stuðningsmönnum liðsins boðið upp á fríar rútuferðir. Rútan leggur af stað frá Olís í Borgarnesi kl. 11:30.

Miðar á leikinn eru til sölu í Tækniborg og Húsasmiðjunni í Borgarnesi og á skallar.is. Andvirði þeirra miða sem seldir eru þessum stöðum renna óskiptir til Körfuknattleiksdeildar Skallagríms. Þeir sem panta miða á skallar.is geta að sögn Sigrúnar fengið þá afhenta á staðnum. „Það má búast við því að verði uppselt þannig að um að gera að tryggja sér miða,“ segir Sigrún. „Ég vona að allir sem vettlingi geta valdið sjái sér fært að mæta og styðji við bakið á stelpunum með góðri stemningu. Verum kurteis en peppum okkur upp, köllum og hrópum og yfirgnæfum Keflvíkinga,“ segir hún og er sannfærð um Skallagrímur standi uppi sem sigurvegari á morgun. „Ekki spurning, Skallagrímur verður bikarmeistari,“ segir Sigrún Reynisdóttir að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir