Andlát – Imba á Rauðsgili

Ingibjörg Jónsdóttir, Imba frá Rauðsgili eins og hún var jafnan kölluð, er látin 76 ára að aldri. Imba var fædd í Biskupstungum vorið 1940. Hún missti föður sinn ung og flutti þá ásamt móður sinni og tveimur systkinum til Reykjavíkur þar sem hún ólst upp. Ung gerðist Imba kaupakona að Rauðsgili í Hálsasveit þar sem hún kynntist verðandi eiginmanni sínum, Oddi Guðbjörnssyni bónda. Saman áttu þau tvö börn en Imba átti einn son áður. Mann sinn missti hún 1990 en bjó áfram á Rauðsgili til ársins 1995 en flutti þá í Reykholt. Frá 1983 starfaði hún við héraðsskólann og síðar hótelið í Reykholti. Árið 2009 fótbrotnaði hún illa og veiktist í kjölfarið þannig að hún náði aldrei fullum líkamlegum styrk að nýju. Hún flutti þá að Kleppjárnsreykjum en bjó í Brákarhlíð í Borgarnesi síðustu æviárin. Þar lést hún í kjölfar skammvinnra veikinda 9. febrúar síðastliðinn.

Imba á Rauðsgili var ákaflega litríkur karakter og aldrei var nein lognmolla í kringum hana. Margir minnast hennar fyrir glaðværð, smitandi hlátur og skemmtileg kynni. Skessuhorn sendir fjölskyldu, vinum og samferðarfólki Imbu á Rauðsgili samúðarkveðjur. Jafnframt er henni þakkað fyrir vinsemd og hlýhug í garð starfsmanna og blaðs alla tíð.

 

Árið 2011 tók Birna G Konráðsdóttir blm. líflegt viðtal við Imbu á Rauðsgili sem birtist í Skessuhorni. Til minningar um góða konu er viðtalið birt hér í heild sinni.

 

„Það verður að hafa einhvern húmor í þessu“

Þótt hún hefði verið með annan fótinn í sveit fyrir austan fjall fannst henni myrkrið mikið þegar hún kom í Borgarfjörðinn í fyrsta sinn rétt eftir 1960. Það var samt komið rafmagn á suma bæi en skýringuna var kannski að finna í því að á vetrum hafði viðmælandi okkar búið í Reykjavík og þar var auðvitað meira upplýst en gerðist til sveita. „Það var allt systrunum á Úlfsstöðum að kenna að ég kom og ílengdist í Borgarfirði,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, betur þekkt sem Imba á Rauðsgili, og hlær um leið þessum sérstaka hlátri sem flestir Borgfirðingar þekkja. „Þær plötuðu mig hingað uppeftir því það vantaði kaupakonu að Rauðsgili. Síðan varð ekki aftur snúið og þótt ég verði aldrei talin Borgfirðingur verð ég samt aldrei neitt annað en Imba á Rauðsgili. Og veistu! Mér þykir bara vænt um það.“

Föðurmissir og búferlaflutningar

Imba er fædd og uppalin í Biskupstungum vorið 1940, hreinræktuð úr Haukadalnum, eins og hún segir sjálf. Faðir hennar var í lögreglunni en fékk síðan þá hugmynd að fara að rækta ætisveppi og keypti því smá landskika fyrir austan undir svepparæktun. „Uppskeran varð aldrei nema ein því hann dó blessaður áður en meira varð af ræktun. Ég sé svo sem ekki fyrir mér að Íslendingar hafi viljað éta gorkúlur í stórum stíl þarna árið 1943,“ segir Imba hlæjandi og heldur áfram, „en öll þessi uppskera fór á Hótel Borg og svo urðum við að flytja. Mamma var nú orðin ein með þrjú börn og tók á það ráð að flytja með okkur til Reykjavíkur. Til að byrja með bjuggum við nálægt bröggum sem girt var í kringum. Og veistu, þessi girðing varð til þess að við systur vorum flengdar alveg rosalega, þannig að við munum það enn. Það var nefnilega svo freistandi að hanga þarna og sníkja sér tyggjó hjá hermönnunum og við vorum nappaðar í landhelgi,“ og nú hlær Imba dátt. „En þetta kom auðvitað af gefnu tilefni. Við höfðum legið nokkru fyrr, veikar í mislingum. Þegar okkur fór að batna höfðum við ekkert betra að gera en að hanga úti í glugga, því við máttum ekki fara út alveg strax. Á hverjum degi gekk sami hermaðurinn fram hjá glugganum og henti þá gjarnan til okkar epli eða appelsínu, stundum hvoru tveggja. Þú getur nú rétt ímyndað þér hvort ekki hafi verið jafnt skipt, upp á millimetra enda ekki oft sem íslenskir krakkar fengju svona góðgæti á þessum tíma.“

Pils, buxur og sveitin á sumrin

Eins og oft hefur verið hjá þeim sem minna máttu sín flutti fjölskyldan nokkuð oft innan Reykjavíkur. Aðstæður voru mismunandi, eins og gengur. „Á einum stað var það t.d. svo að það var vatn í íbúðinni okkar en ekkert niðurfall. Við pissuðum ekkert í fötu, ef þú heldur það, heldur fórum upp á loft í íbúðina þar þegar við þurftum að gera svoleiðis hluti. Þar voru tiltækar græjur. Frúin í húsinu á móti tók okkur síðan og baðaði, líklega þegar henni fannst við orðin þessleg að það þyrfti. Það var margt öðruvísi í Reykjavík þá. Sem dæmi áttum við stelpurnar alltaf að vera í pilsum, annað var ekki í boði. Hins vegar var svo langt að labba í skólann úr sumum hverfum og það var alveg djöfullegt að vera að vaða skafla í einhverju pilsi með bert á milli, þú getur nú rétt ímyndað þér. Þá varð að fá leyfi hjá skólastjóranum til að mega labba í buxum á milli heimilis og skóla. Hugsaðu þér! En það fékkst og eftir það fóru margar stelpur að koma í buxum. Þvílíkur munur. En ég var aldrei í Reykjavík á sumrin, bara á veturna. Það skýrir ábyggilega hvað mér fannst svakalega mikið myrkur hér þegar ég kom í Borgarfjörðinn fyrst. Það var samt komið rafmagn en viðbrigðin voru bara svo mikil. Ég var alltaf í sveit á sumrin. Fór meðal annars einu sinni vestur í Ísafjarðardjúp. Það var nokkuð sérstakt. Þegar átti að fara að smala til rúnings sagði karlinn á bænum að ég yrði að athuga að smala snjóskaflana. Ég hafði ekki hugmynd hvað hann átti við þar til ég sá að í sköflunum lágu kindurnar. Þetta var ótrúleg upplifun. En ég hafði ekki löngun til að vera þarna lengi. Of mikill snjór og svo hefur mér aldrei verið vel við sjóinn. Veit ekki af hverju, en þannig er það.“

Uppskipun og hörku kerlingar

Sagt hefur verið að þeir sem vilji vinna fái alltaf vinnu, Imba segir að það séu gömul sannindi og ný. „Ef mig vantaði pening fór ég í uppskipun hjá Júpíter og Mars. Það var alveg frábært. Brjálað puð en svaka góður peningur upp úr því. Ég var hins vegar svo vel borguð að það var ekki hægt að borga mér út á staðnum, það mátti enginn sjá hvað ég fékk, svo ég varð að fara upp á skrifstofu og ná í kaupið. En fyrir þessa peninga gat ég djammað allt sumarið, það var ekki slæmt. Ég var líka aðeins í fiskvinnu þótt ég hafi aldrei saltað síld. Kerlingarnar voru svo harðar sem unnu við það að þær fóru ekki einu sinni á klósettið, heldur létu bara leka niður. Merkin fyrir hverja tunnu settu þær síðan í stígvélin og helltu úr þeim á kvöldin, bæði merkjum og öðru. Þar var ein kerling sem var alveg svakaleg. Hún reykti mikið en gaf sér ekki tíma til að halda á sígarettunni heldur var með hana dinglandi í munninum allan daginn. Enda var komin tóbaksgul rönd frá munni, meðfram nefinu í átt að auga. Svo söng hún klámvísur allan daginn og aldrei sömu vísuna. Heldurðu að sé? Þetta voru ótrúlegar kerlingar sem gaman var að vera í samskiptum við. Þótt þær væru harðar og sérstakar var engin þeirra vond við mig. Nú mega krakkar bara ekkert sjá og heyra. Alltaf verið að passa þau. Ég held að það sé mikill misskilningur. Krakkar eiga að sjá lífið. Þeir hafa ekkert slæmt af því ef enginn er vondur við þá. Það er hins vegar það ljótasta sem maður sér.“

Nógu ættstór fyrir ráðahaginn

Eins og fram hefur komið kom Imba sem kaupakona að Rauðsgili og kynntist þar Oddi Guðbjörnssyni bónda og úr varð hjónaband og þrjú börn. „Það var kannski ekki brennandi ást þar á bak við, fremur hagkvæmni sem réði því að við urðum hjón og svo var jörðin falleg. Ég kom í Borgarfjörðinn eftir áeggjan vinkvenna minna, systranna á Úlfsstöðum. Við höfðum oft skemmt okkur í Alþýðuhússkjallaranum hér áður fyrr og að fara í Borgarfjörð var svo sem alls ekkert verra en hvað annað. Mér fannst hins vegar alveg rosalega erfitt að komast inn í þetta samfélag. Það var svo sem ekki verið að fagna manni, þannig. Jafnvel þótt ég hafi búið hér svona lengi verð ég aldrei Borgfirðingur þótt börnin mín séu það. Þegar ég flyt hingað voru tvær ættir helstar, Deildartunguætt og Húsafellsætt og ættardrambið gífurlegt. Þetta giftist síðan hvert öðru, tók helst engum öðrum og rifust svo eins og hundar og kettir ef þannig bar til. Þetta hefur nú sem betur fer breyst og blöndunin orðin töluverð, meðal annars með fólki eins og mér,“ segir Imba og brosir við. „Hins vegar man ég að Páll gamli á Steindórsstöðum sagði að ég væri nógu ættstór til að Oddur mætti giftast mér, ættuð úr Haukadalnum í báðar ættir. Ég hefði getað lamið helvítis karlinn,“ segir Imba með hlátrasköllum. „Ég kunni lítið á svona ættardæmi, enda bara alin upp í Reykjavík. Ég hef alltaf verið hress, komið eins fram við alla og heilsað öllum. Verið með spaugsyrði og hlegið dátt. Það var nú aldeilis ekki upp á pallborðið hjá öllum skal ég segja þér. Oddur sagði gjarnan að ég gapti framan í hvern kjaft. En ég lét mér það í léttu rúmi liggja. Mér var alveg sama hver kom í heimsókn, tók öllum vel en það tíðkaðist ekki á öllum bæjum. Menn gerðu sér mannamun hér. Það er líka gaman að segja frá því þar sem ég hef nú aldrei verið á hornösinni, fremur þrifleg alla tíð, að gárungarnir hentu það á lofti og sögðu að nauðsynlegt væri fyrir Odd að stækka hlaðið og svipað var uppi á teningnum þegar ég ökklabrotnaði árið 1963. Þá var gert grín að því að ég stæði bara á öðrum fæti. Auðvitað stóð ég ekkert á öðrum fæti, það getur hver heilvita maður séð.“

Rosalegar harðsperrur

Borgfirskir bændur þóttu framsýnir og bjuggu vel og stóðu jafnvel framar bændum í öðrum landshlutum hvað varðaði uppbyggingu og verkun á heyjum, alla vega segir Imba að svo hafi verið þegar hún flutti á svæðið. „Ég hafði náttúrulega mikinn samanburð frá Árnessýslunni. Þar voru bændur enn að setja upp í sátur og hirða á gamla mátann meðan borgfirskir bændur voru farnir að setja upp í galta og keyra heim. Það var mikill munur. Hér hafði einnig verið byggt mikið upp og búskapur stóð með miklum blóma. Nú finnst mér eins og mínir menn hafi dregist aftur úr öðrum sveitum og finnst það miður. En ég lifði svo sem við venjulega sveitavinnu og var held ég enginn aumingi og gat alveg tekið til hendinni, eins og sagt er. En þær rosalegustu harðsperrur sem ég hef nokkurn tímann fengið komu eitt vorið þegar áburðarbíll kom í hlaðið. Oddur var ekki heima og það varð að koma áburðinum á sinn stað. Mér fannst það svo aumingjalegt að spyrja bílstjórann hvort ég mætti vera uppi á bílnum og færa honum pokana svo ég bara tók við og bar allan áburðinn sjálf. Fjögur tonn, takk fyrir, hver poki fimmtíu kíló eins og þá var. Og einhverjar hafa harðsperrurnar verið því ég man þær enn. Ég komst að því þá að vöðvar leyndust víðar en ég hélt.“

Hvað ert þú að gera hér?

Flestir ljóðelskandi Íslendingar kannast við Jón Helgason sem kenndi sig við Rauðsgil. Hann var fjarskyldur ættingi Odds og kom í heimsókn, oft á hverju ári, en Jón bjó og starfaði í Kaupmannahöfn. „Mér er mjög minnisstætt þegar Jón kom fyrst í Rauðsgil eftir að ég flutti þangað. Karlinn var þurrtruntulegur og stóð alveg undir merkjum þegar hann ávarpaði mig í fyrsta sinn, þá segir hann: „Hvað ert þú að gera hér?“ Nú ég svaraði því bara eins og til stóð. Árið eftir kemur hann aftur og segir þá. „Hva, ert þú hér enn?“ Þetta var nú ekkert til að taka nærri sér og við Jón Helgason urðum gífurlega miklir vinir. Ég held að það hafi verið af því að ég átti kött, en hann var mikill kattavinur, en mér þótti ótrúlega vænt um karlinn. Einu sinni kemur bréf frá Jóni þar sem hann biður mig um að fara út og tína fyrir sig reyr. Ég rauk út og tíndi reyr eins og vitlaus manneskja og sendi honum út til Kaupmannahafnar. Reyrinn ætlaði hann að setja í fatakistu sína. Mér hefur nú verið hugsað til þess síðar að þetta hefði ábyggilega ekki gengið í nútímanum. Það hefði án efa þótt afar grunsamlegt að Jón Helgason væri að fá fullan kassa af undarlegu grasi, frá Íslandi.“

Stórafmæli og Geirmundur

Margir Borgfirðingar hafa skellt sér á töðugjaldaball í Þverárrétt, þar er Imba engin undantekning. Oftar en ekki hefur hljómsveit Geirmundar Valtýssonar leikið þar fyrir dansi. „Við vorum að skemmta okkur þarna kerlingarnar, alveg blindfullar og Geirmundur sagði, að það yrði að koma þessari fullu kerlingum af gólfinu,“ segir Imba brosandi þegar rætt er um tilurð þess að hún og Geirmundur kynntust. „Síðan átti að halda réttarball í Brúarási og talað var við Geirmund sem var til í að koma að spila. Ballið var alltaf á föstudegi og hljómsveitin spilaði á öðrum stað á laugardeginum. Til þess að hljómsveitarkarlarnir yrðu ekki að þvælast eitthvert annað til að fá að borða var alltaf boðið í mat á Rauðsgili, steikt lambslæri var á borðum, annað var ekki tekið í mál og þetta varð að hefð. Þannig kynntumst við Geirmundur og urðum miklir vinir. Hann er mikill vinur vina sinna og þar er ég í hópi, sem betur fer. Svo leið að því að ég yrði fimmtug. Haustið áður talar Geirmundur við mig um að hann vilji halda upp á afmælið mitt og launa mér þannig fyrir allan matinn sem ég hafði gefið honum og hans mönnum. Ég sagði bara já, já, við því og átti svo sem ekkert von á neinu meiru. Fljótlega eftir áramótin hringir hann í mig og spyr hvort ég sé búin að panta Brúarás fyrir afmælið, en ég er fædd í apríl. Þá sá ég að honum var alvara og pantaði húsið. Hann kom og spilaði og þetta var besta afmæli sem ég hef nokkurn tímann átt. Fyrir kvöldmat frá fjögur til sjö var hann með ball fyrir börnin og eftir kvöldmat fyrir þá eldri. Það var dansað fram eftir nóttu og alveg ofsalega gaman. Geirmundur reyndist mér einnig vel síðar, þegar ég þurfti að selja kvótann, þannig að hann hefur sannarlega ekki gert það endasleppt við mig.“

Best launaða vinnan og flutningur í Reykholt

Árið 1983 hefur Imba vinnu í Reykholti með búskapnum. Hún var þar við skúringar og segist aldrei hafa verið í betur launaðri vinnu. „Við vorum tvær sem unnum þarna saman Kristín í Kvisti og ég. Mikið helvíti sem ég saknaði hennar þegar hún dó. En þarna vorum við og höfðum þrusugott kaup. Einu sinni átti að mæla upp hvað við vorum að skúra, því yfirmennirnir sáu ofsjónum yfir því hvað við vorum fljótar. Þeir hættu snarlega við það er í ljós kom að gólfflöturinn var svo stór að það hefði orðið að hækka töluvert við okkur kaupið. Síðar fór ég að vinna á hótelinu í eldhúsinu og var svo seld með þegar það fór að ganga kaupum og sölum. Það var alveg ótrúlegt hvað ég hækkaði í verði á milli eigenda, varð alltaf dýrari og dýrari! Fyrst var ég seld á nokkrar milljónir sem urðu að einhverjum hundruðum fyrir rest. Heldur að það sé nú munur að halda svona vel verðgildi sínu?“

Það eru ekki alltaf jólin

„Það eru ekki alltaf jólin,“ segir Imba þegar talið berst að því að hún varð ekkja árið 1990. „Oddur hafði verið sjúklingur um langa hríð, barðist við krabbamein sem varð honum að aldurtila. Þetta var alls ekki skemmtilegt tímabil. Einhvern veginn er það svo að þegar veikindi eru þorir enginn að koma því fólk veit ekki hvað það á að segja og því minnkaði renniríið heim. Mér fannst þetta ferlega leiðinlegt og hefði ábyggilega drepist úr leiðindum ef karlinn hefði ekki fundið sér áhugamál við að skrá ættartölur. Mikið sem ég var fegin þegar hann fann upp á því. En ekki er hægt að neita því að höggið var mikið þegar hann dó. Maður telur sig alltaf vera tilbúna en svo er alls ekki. Ég bjó áfram um tíma en það er bara ekkert hægt að búa upp á hjálp frá öðrum. Nágrennið við alla hér hefur verið gífurlega gott, mikið um heimsóknir, það breyttist ekki fyrr en sjónvarpið kom. Það var ekki síst gott samband við Steindórsstaði, bæði fyrr og síðar. Þaðan barst mér ómæld hjálp en þú býrð ekki upp á nágrannana. Annað hvort ertu sjálfbjarga eða færð þér aðra vinnu. Svo skapar þú líka þínum nánustu hræðslu sem alltaf eru að hringja og athuga hvort maður sé ekki í lagi. Þá voru ekki allir með farsíma upp á vasann eins og nú er. Svo hef ég alltaf verið ákveðin í því að búa aldrei hjá börnunum mínum eða tengdabörnum og því flyt ég í Útgarða í Reykholti árið 1995, áður en hótelin hófu þar rekstur á ársgrundvelli. Þeim hjá ríkinu fannst gott að vita af einni vitlausri kerlingu þar frekar en engum. Ég var aldrei myrkfælin í Útgörðum, þótt ég væri alein í þessu stóra húsi, en í sumum hlutum gamla skólans var ég að farast úr myrkfælni, það var alveg ótrúlegt, en ég saknaði árniðarins frá Rauðsgili, það var helvítis dauðaþögn í Reykholti.“

Gripið í taumana

Það er síðan árið 2009 að Imba lendir í slysi, fjórbrotnar á læri. „Þetta var bara slys sem gerðist fyrir framan Handavinnuhúsið í Borgarnesi. Mér var kippt út úr öllu í einum vettvangi en tel mig hafa verið heppna að lenda á Akranesi. Mér hefði aldrei verið leyft að liggja svona lengi á sjúkrahúsi í Reykjavík. Starfsfólkið á Akranesi á allar mínar þakkir fyrir að draga mig framúr vælandi þótt læknirinn hafði ekki verið skemmtilegur til að byrja með. Hann sagði við mig ábúðarfullur að fimm prósent af svona brotum gréru aldrei. Ég var ekki lengi að snúa þessu við og sagði við hann hvatvís á móti að 95% myndu þá gróa. Ég er með tvö löng ör sem sýna þessi ósköp, annað er 15 sentímetrar og hitt tuttugu og fimm. En ég var afar heppin því þrátt fyrir allt fékk ég ekki sýkingu, skurðirnir roðnuðu ekki einu sinni. En mikið var læknirinn minn góður smiður. Hann sagaði, boraði og brúkaði heftibyssuna, alveg upp á kraft og nú er ég hér, með túrbó göngugrind og kemst allra minna ferða, má bara alls ekki detta og því hef ég ekki þorað að sleppa viðhaldinu alveg.“

Raunum Imbu var ekki alveg lokið því á meðan brotin voru að gróa fékk hún blóðtappa sem endaði uppi í lunga. Henni fannst ekkert mál að brotna miðað við að fá blóðtappann. „Það sem var verst er hversu fljótt maður verður stofnanamanneskja. Ég fór á aðra deild út af blóðtappanum og þar var ég auðvitað eins og á tíu stjörnu hóteli. Maður vill bara ekkert fara þaðan og löngunin til sjálfshjálpar hverfur ótrúlega fljótt. Að óreyndu hefði ég aldrei trúað því. Þegar farið var að ræða um að ég ætti að fara heim þá sagði ein hjúkkan þessi fleygu orð. „Heldurðu þá kannski að þú getir farið í skyrtuna sjálf?“ Þá var eins og ég vaknaði af dvala. Sá að ég hafði bara ekkert gert. Mér var þvegið, fært í rúmið, klædd og drifin framúr og veistu, ég hafði bara alveg vanist þessu. En nú varð að gera eitthvað. Eins og ég sagði áður var búið að kippa mér út úr öllu. Ég var húsnæðis- og atvinnulaus en var þá svo heppin að fá íbúð hér á Árbergi, allt á einni hæð og engir stigar. Ég hefði aldrei getað farið aftur í Reykholt. Íbúðin þar hentaði ekki konum með viðhald!“

Heimferð, einn, tveir og þrír

Þegar einhver er orðin stofnanamanneskja er meira en að segja það að rífa sig upp úr því fari, eftir því sem Imba segir. Flutningurinn heim varð því að gerast einn, tveir og þrír. „Dóttir mín keyrði mig hingað og vissi alveg hvað hún var að gera,“ segir Imba brosandi. „Hún hjálpaði mér hingað inn, sá til þess að matur væri í ísskápnum og fór svo. Það var eina leiðin til að koma mér í gang á ný. En þetta var bara fyndið, svona eftir á. Ég komst ekki upp úr rúminu nema að hafa spotta til að hífa mig upp með, var gífurlega tæknivædd, með alls konar græjur til að hjálpa mér í fötin og sokkana líka. En þar sem ég á erfitt með að væla þá gekk þetta allt, ég varð bara að standa mig. Eins og ég sagði þá var ég ferlega heppin að fá þetta húsnæði. Hér eru nokkur hús í þyrpingu og íbúarnir passa mig allir. Ef ég er ekki búin að draga tímanlega frá kemur einhver granninn og athugar hvort kerlingin sé ekki á lífi. Það er alveg yndislegt. Ég hefði aldrei getað hugsað mér að flytjast inn á börnin mín og held því í sjálfstæðið eins lengi og ég get. Enda eru mér flestir vegir færir núna, búin að henda hjálpartækjunum nema túrbó grindinni. Það er hins vegar ekkert grín að vera öryrki á Íslandi. Ég held að tryggingarnar og ég hljótum að hafa verið gift í fyrra lífi. Það er allt einhvern veginn öfugt er kemur að okkar samskiptum, einhver misskilningur eða eitthvað sem ekki passar. Það sem mér finnst verst við allt þetta kerfi er að það bitnar alltaf mest á þeim sem minnst mega sín, það er óþolandi. En þess utan er ég sátt. Ég er eins og karlinn hann Oddur minn, hef mitt hobbý, prjóna og prjóna eins og enginn verði morgundagurinn. Væri ábyggilega löngu orðin vitlaus ef ég hefði það ekki en líður reyndar bara vel og er sátt, það er fyrir mestu. Svo manstu bara eitt þegar þú ferð að skrifa þetta, það verður að vera einhver húmor í þessu. Það er eins og með lífið, maður verður að geta hlegið, annars er allt svo djöfull leiðinlegt,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir sem þykir vænt um að vera áfram Imba á Rauðsgili.

Útför Ingibjargar Jónsdóttur verður gerð frá Reykholtskirkju laugardaginn 18. febrúar klukkan 13:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir