Ómar Ólafsson frjálsíþróttaþjálfari í Akraneshöllinni þar sem mánudagsæfingarnar fara fram. Ljósm. kgk.

Áhugi á frjálsum íþróttum á Akranesi

Undanfarnar vikur hefur Ungmennafélagið Skipaskagi á Akranesi staðið fyrir frjálsíþróttaæfingum fyrir börn og unglinga sex ára og eldri. Þær fara fram tvisvar í viku hverri, á mánudögum og miðvikudögum. Mun þetta vera í fyrsta sinn um árabil sem staðið er fyrir frjálsíþróttaæfingum á Akranesi, í það minnsta yfir vetrartímann. Farið var af stað með æfingarnar að frumkvæði þjálfarans, Ómars Ólafssonar. „Það var í raun og veru bara mín hugmynd að fara af stað með þessar æfingar. Ég hafði því samband við Ungmennafélagið Skipaskaga og spurði hvort þeir hefðu áhuga og í kjölfar þess varð úr að ég byrjaði að þjálfa,“ segir Ómar í samtali við Skessuhorn. „Sjálfur var ég mikið í frjálsum þegar ég var yngri og hef áhuga fyrir þjálfun, hef til dæmis þjálfað fótbolta í gamla grunnskólanum mínum á Varmalandi en þetta er í fyrsta sinn sem ég þjálfa frjálsar,“ segir hann og lætur vel af þjálfun. „Mér finnst gaman að hjálpa öðrum að ná árangri, aðstoða og leiðbeina fólki eftir bestu getu. Það er ánægjulegt að geta gert gagn,“ segir Ómar.

Hann kveðst ekki hafa vitað við hverju hann ætti að búast á fyrstu æfingunum og segir að mætingin hafi komið sér skemmtilega á óvart. „Það kom mér á óvart hvað það var góð mæting á fyrstu æfingarnar, ég bjóst alveg eins við því að hún yrði lítil. Það er ánægjulegt að sjá að hér eru krakkar sem hafa áhuga á frjálsum íþróttum og mæta á æfingar. Eins hef ég fengið margar símhringingar frá krökkum og foreldrum sem eru að spyrjast fyrir um æfingarnar, þannig að áhuginn er fyrir hendi. Þess vegna byrjaði ég nú með þessar æfingar, af því ég vissi að það væri áhugi,“ segir Ómar.

 

Þjálfun eins og aðstaðan leyfir

Þjálfarinn segir að á æfingunum fái iðkendur að kynnast og spreyta sig í hinum ýmsu greinum frjálsra íþrótta, í bland við þrek- og styrktaræfingar. „Við gerum þrekæfingar en að sjálfsögðu fer mikill tími í að þjálfa krakkana í öllum frjálsíþróttagreinunum, eftir því sem aðstaða og áhöld leyfa,“ segir Ómar, en Umf. Skipaskagi á lítið af áhöldum. Sótt verður um styrki og framlög til að bæta það, að sögn Ómars. „En þangað til æfum við eins og aðstaðan leyfir og notum þau áhöld sem til eru eða við getum fengið lánuð í íþróttahúsunum,“ segir hann.

 

Allir velkomnir

Að lokum vill þjálfarinn nýta tækifærið og hvetja alla sem hafa áhuga á frjálsum eða langar að prófa til að taka þátt. „Félagsskapurinn er góður og frjálsar íþróttir eru mjög fjölbreyttar. Allir ættu að geta fundið sér grein við sitt hæfi í frjálsum íþróttum og ég hvet alla til að prófa. Þetta er rosalega gaman og að sjálfsögðu eru allir velkomnir,“ segir Ómar Ólafsson að lokum.

Æfingar Umf. Skipaskaga eru sem fyrr segir tvisvar sinnum í viku. Á mánudögum er æft í Akraneshöllinni frá klukkan 17:30 til 19:00 og á miðvikudögum í íþróttahúsinu að Jaðarsbökkum frá 18.15 til 19:30. Vilji einhver spyrjast nánar fyrir um æfingarnar er síminn hjá þjálfaranum 841-8065.

Líkar þetta

Fleiri fréttir