Sunna Gautadóttir hlaðin verðlaunum. Hún stendur hér við hlið myndarinnar sem varð í fyrsta sæti. Ljósm. Halldór Óli Gunnarsson.

Verðlaunamyndir til sýnis í Safnahúsinu

Síðastliðinn laugardag var opnuð ný sýning í Safnahúsinu í Borgarnesi; ljósmyndasýning með verkum eftir ellefu myndhöfunda. Allt eru það áhugaljósmyndarar og myndefnið er umhverfi og mannlíf í Borgarnesi á árinu 2016. Markmiðið með samkeppninni var að fanga sjónarhorn ólíkra ljósmyndara á mannlíf og umhverfi Borgarness árið 2016 sem undanfara að afmælisári. Leit dómnefnd jafnt til heimildagildis og gæða myndanna. Tilefnið er að í ár á bærinn 150 ára afmæli og eru myndirnar valdar úr innsendu efni í ljósmyndasamkeppni sem Safnahúsið stóð fyrir í fyrra. Myndirnar eru bæði fjölbreyttar og litríkar og sýningin er prýðilegur samfélagsspegill. Opnun sýningarinnar er jafnframt fyrsti formlegi viðburðurinn í tilefni af afmælisári Borgarness. Eins og kunnugt er mun síðan í mars næskomandi koma út vegleg afmælisbók í tilefni tímamótanna.

Alls voru sendar inn 56 ljósmyndir á sýninguna í Safnahúsinu og fyrir lá að dómnefnd myndi gera myndefni og myndgæðum jafn hátt undir höfði vegna heimildagildis til framtíðar. Í dómnefnd voru þau Þorkell Þorkelsson, Heiður Hörn Hjartardóttir og Kristján Finnur Kristjánsson. Heiður Hörn sá ennfremur um hönnun sýningarinnar, smiður var Hannes Heiðarsson, Tækniborg annaðist prentun myndanna og Framköllunarþjónustan veggspjaldaprentun.

Við opnun sýningarinnar var jafnframt tilkynnt um verðlaunahafa fyrir þrjár bestu myndirnar. Fyrstu og önnur verðlaun féllu í skaut Sunnu Gautadóttur, en þriðju verðlaun hlaut Michelle Bird. Hlutu þær verðlaun sem gefin voru af Beco, Tækniborg í Borgarnesi og Landnámssetri Íslands. Þess má geta að Sunna Gautadóttir býr í Borgarnesi. Hún lauk námi í ljósmyndun í nóvember síðastliðnum og hefur frá áramótum lagt ljósmyndun fyrir sig sem aðalstarf.

Ljósmyndasýningin er opin virka daga klukkan 13.00 – 18.00 og stendur fram í miðjan mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Sýningu Ísaks Marvins lýkur í dag

Grundfirðingurinn Ísak Marvins opnaði myndlistasýningu sína, Innsýn, í Samkomuhúsi Grundarfjarðar fimmtudaginn 18. október síðastliðinn. Sýningin er liður í dagskrá Rökkurdaga.... Lesa meira