Sæmundur Steindór Magnússon og Guðrún Katrín Sandholt reka rafrettuverslunina MyVape Akranes.

Rafrettuverslun opnuð á Akranesi

Hjónin Sæmundur Steindór Magnússon og Guðrún Katrín Sandholt opnuðu á gamlársdag verslunina MyVape Akranes að Vesturgötu 162 á Akranesi. Þar selja þau rafrettur og vökva í þær. Sjálf hættu þau reykingum og tóku upp rafrettuna í vetur og nú vilja þau aðstoða reykingafólk við að gera slíkt hið sama. „Við hjónin hættum að reykja fyrir að verða þremur mánuðum síðan og fengum okkur rafrettu. Áður reyktum við tvo pakka á dag og satt best að segja héldum við að það yrði ekki mögulegt að hætta. En það tókst með hjálp rafrettunnar og þetta er allt annað líf. Við erum hætt að reykja og líður vel,“ segir Sæmundur í samtali við Skessuhorn.
En hvernig kom það til að þau ákváðu að hefja sölu á rafrettum? „Á Þorláksmessukvöld var mín rafretta uppi á borði þar sem ég hafði lagt hana frá mér. Við eigum ketti og þeir fóru að leika sér í borðdúknum sem varð til þess að hún mín datt í gólfið og brotnaði. Það var því algjört neyðarástand hér á Þorláksmessu,“ segir Sæmundur léttur í bragði. „Stuttu eftir jólin var pöntuð ný og við ákváðum um leið að kanna hver viðbrögð fólks yrðu við verslun sem þessari,“ segir hann og bætir því við að þau hafi ekki látið á sér standa. „Viðbrögðin eru búin að vera ótrúleg, bæði frá fólki sem nú þegar notar rafrettur en einnig öðrum. Þó nokkuð margir viðskiptavinir sem komu til okkar strax eftir opnunina eru hættir að reykja,“ bætir hann við.

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir