Hanna Jónsdóttir þroskaþjálfi. Ljósm. sá.

„Það er mikið atriði að allir hafi hlutverk“

Hanna Jónsdóttir er þroskaþjálfi hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga og hefur sem kunnugt er unnið gott starf með Ásbyrgi í Stykkishólmi undanfarin ár, en Ásbyrgi er dagþjónusta og vinnustofa FSSF. Í desembermánuði var Hanna tilnefnd til hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands fyrir frumkvöðlastarf í þágu fatlaðs fólks í Stykkishólmi. Þá má einnig geta þessa að hún fékk nokkrar tilnefningar þegar Skessuhorn gekkst fyrir valinu á Vestlendingi ársins 2016. Skessuhorn sló á þráðinn til Hönnu á dögunum og ræddi við hana um starf Ásbyrgis, þýðingu þess fyrir samfélagið og hennar sýn á starfsemina til framtíðar.
Ásbyrgi var stofnað fyrir bráðum fimm árum síðan, í kjölfar þess að málefni fatlaðra voru færð frá ríki yfir til sveitarfélaga. „Ég var á þeim tíma að vinna hjá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Þegar málaflokkurinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna þá flutti ég með og vann í ráðgjöf vegna fatlaðra barna og fullorðinna á Snæfellsnesi og í Dölum,“ segir Hanna í samtali við Skessuhorn. „Síðan kom að því að úr Fjölbrautaskóla Snæfellinga útskrifuðust tveir ungir menn, tvítugir að aldri sem vantaði hlutverk í samfélaginu. Þá var ákveðið að stofna Ábyrgi til að þeir fengju þjónustu. Þetta var 27. ágúst árið 2012,“ útskýrir hún. Í upphafi störfuðu fjórir hjá Ásbyrgi og markmiðin voru skýr frá fyrsta degi: „Í fyrsta lagi að allir vinni á almennum vinnumarkaði líka, hluta úr degi eða hluta úr viku, en í þeim tilfellum Þá er gerður örorkusamningur milli fyrirtækis og einstaklings. Hitt markmiðið var það að allir fengju þjónustu utan heimilis átta tíma á dag, þannig að vinnudagurinn væri frá átta til fjögur. Þeir sem væru í hlutastarfi kæmu þá í Ásbyrgi og lykju deginum þar, til að fá fullan vinnudag,“ útskýrir hún.

Viðtalið við Hönnu er að finna í heild sinni í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir